miðvikudagur

Ahhh...

Halló. Nú er fyrri hluti jólahreingerningar búinn. Síðari hluti verður þann 14.desember. Við Zwan vorum vaktar af Votta Jehova konum um klukkan 14 í dag, (var á nætó) og erum við búnar að standa hérna á haus í dag að þrífa og klára að skreyta, skelltum okkur svo á fataheildsölu og keypti ég mér góða og hlýja kápu sem ég er alveg sérlega ánægð með, einnig keyptum við okkur eins ódýrar buxur. Er heim kom eldaði ég dýrindis fiskrétt fyrir okkur og bauð Zwan upp á Ostadesert í eftirrétt. Ljúffengt. Núna er ég þreytt. Vorum að opna hvítvínsflösku og ætla ég að leggjast upp í sófa, undir Djúsí tepper, með hvítvín, súkkulaðirúsínur og After Eight og hafa það virkilega gott.

fimmtudagur

Ferðasaga

Já við Selma Salmonella skelltum okkur vestur á Snæfellsnes á sunnudaginn. Lögðum af stað úr Reykjavíkinni kl. 11 og rétt náðum í messu í Ólafsvík kl. 14:00 þar sem við sungum hástöfum með kórnum en aðrir í messuni voru of feimnir og til að syngja (sennilega ógnuðum við þeim bara með okkar einstöku englaröddum). Eftir messu skelltum við okkur með mömmu á jólabasar í Félagsheimilinu og gerðum þar góð kaup en við keyptum okkur húfur, vettlinga, ullarsokka, kökur og bauð mamman svo uppá heitt súkkulaði. Um kvöldið lágum við eins og steiktir kúrbítar í sófanum og sváfum yfir sjónvarpinu í brjáluðu veðri, risahagli og þrumum og eldingum til kl rúmlega 01 um nóttina.
Mánudagurinn var svo svakalegur letidagur. Við skelltum okkur uppí kirkju Ingjaldshólsprestakalls í brjáluðu veðri og skoðuðum hana í krók og kima og var Selma sannfærð um að hafa heyrt í draugsa inná wc, ég, ofurhugrökk skaust að ath. málið og var ekkert óvenjulegt í gangi þar. Við skoðuðum málverk og ljósmyndir og Selma æfði sig að ganga inn altarið. Þar næst fórum við í búðina Blómsturvelli. Versluðum reyndar ekkert þrátt fyrir mikið úrval þó við höfðum næstum verið búnar að kaupa okkur perlur og leir.
Á þriðjudeginum fengum við æðislegan hádegisverð í boði mömmu. Magnað salat með laxi og lúxus, lögðum svo af stað í bæinn, keyrðum í kringum Snæfellsjökul og fyrsta stopp var á Djúpalónssandi þar sem Selma reyndi við einhver Grettistök og náði sér í orkustein í minjagrip.
Næsta stopp var svo á Arnarstapa þar sem við sáum Bárð Snæfellsás og fengum okkur svo te og heitt súkkulaði með rjóma á kaffihúsinu þar. Svo var sungið eins og kvakandi svanir alla leiðina með pissustoppi í Borgarnesi.
Þetta var bara ansi notaleg ferð þó að ævintýrin hefðu þurft að bíða vegna veðurs en þau koma seinna.
ÉG segi nú bara takk fyrir mig gamla fólk í Ólafsvík, mamma, Selma og kona á kaffihúsi á Arnastapa. Þetta var yndisleg ferð.

P.S. ég vil nú taka það fram að við erum í ævintýraklúbb. Hver sá sem vill vera í klúbbnum þarf bara að láta vita, skrá sig. Skrítið fólk er líka velkomið að vera með. Næsta ferð er óákveðin og ræðst af vinnu og veðri. Samt er stefnt á Snjóbrettagamansferð ef að snjór fellur.

Í tilefni jóla

Í kvöld fékk ég að tala við slökkviliðsmann og slökkva eld. Þvílíkt ævintýri. Ég held ég hafi verið best af öllum sem með mér voru í að slökkva eldinn. Slökkti meira að segja 2 elda. En ég verð að viðurkenna að ég hafi reynslu. Já ég slökkti einu sinni eld sem var í flík sem manneskja var í. Ég reif manneskjuna úr flíkinni og stappaði á henni þar til slökknaði. Svo á ég það nú alveg til að kveikja á kertum og þá slekk ég líka á þeim. En hvað um það, slökkviliðskallinn setti olíu í eitthvað og kveikti í. Svo setti hann fyrir okkur vatn á eldinn og varð þvílík flugeldasýning...eins og fín kaka á gamlárs. Ég komst því að því að vatn á olíueld í vindi er stórhættulegur. Svo komst ég líka að því að ef ég ætla að kaupa slökkvitæki ætti ég að kaupa léttvatnstæki því það dyggði á allt og ef ég ætla að fá mér reykskynjara við eldhús þarf ég að kaupa optískan skynjara en jónískan inn í herbergin. Ykkur til fróðleiks er gott að nefna það að það tekur meðalherbergi 5 mínútur að verða al-elda og nær hitinn þar inni þá 800 gráðum! Askoti mikið en sígarettuglóð er 400 gráður. Svo er nokkuð sem heitir núllpunktur en fyrir ofan hann getur hitinn verið all-svakalegur en fyrir neðan mun minni, því á maður alltaf að vera næst gólfi (en það er líka vegna reyksins enda hættulegar gastegundir í honum) og einnig á maður að beygja sig er maður er að slökkva eldinn og beina skal slökkvidótinu að upptökum eldsins en tillit skal taka til vindáttar ef að maður er úti við.
Já ég man þetta held ég bara allt saman rétt. En þessar fróðlegu upplýsingar skal taka með fyrirvara um villu af minni hálfu.
Nú hvet ég bara alla til að kaupa sér slökkvitæki, reykskynjara og eldvarnarteppi af slökkviliðinu í Desember en þeir verða að selja þessi sniðugu örryggistæki í kringlunni.

þriðjudagur

Crazy tea!

Hver ætli sé byrjuð að selja Herbalife???
Jú það er ég.
Ákvað að prófa það..tapar engu og græðir!
Ég keypti mér te um daginn. Nánar tiltekið Herbalife hindberjate. Þetta er grænt te með koffeiní svo þetta er alger orkubomba! Ég var að koma af næturvakt... svaf 6 klst í gær og nú er klukkan orðin 12 á hádegi og ég er barasta ekkert þreytt...bara búin að vera í stuði...taka til í skápum og fleira í þeim dúr. Fyrsti viðskiptavinur minn var hún Súsanna. Hún keypti einnig Hindberjate og er búin að læra eins og geðskjúk hæna í allan gærdag=12 klst. og barasta ekkert þreytt er hún kom heim. Mæli með þessu fyrir næturvaktir og fólk í prófum. Og svo er þetta ekki vont eins og mér finnst allt annað te.
Jæja hef þetta ekki lengra í bili..ætla að halda áfram að taka allt í gegn...og kannski reyna að sofna.

fimmtudagur

SSR

Síðasliðinn Laugardag var árshátíð SSR á Básum í Ölfusi. Ég mætti auðvitað ásamt mínum æðislega starfsmannahópi og fengum við meira að segja verðlaun fyrir að vera með flest starfsfólk miðað við höfðatölu. Það vissum við reyndar fyrirfram og mættum með skilti sem á stóð 100% enda 100% lið þar á ferð. Verðlaunin gleymdust en við fengum kampavín og ber á meðan...við erum ekki viss hver hin verðlaunin eru...sagt hefur verið að það sé glerskór. Ég er ekki alveg viss um hvað við eigum að gera við hann? Eftir að við borðuðum æðislegan mat byrjaði hljómsveitin Veðurguðirnir að spila...brilliant hljómsveit alveg! Og dönsuðum við eins og óðir apakettir allt kvöldið og fram á nótt...eða þar til rútan fór í bæinn. Sumt fólk hefur áhyggjur af ölvun á skólaböllum en við lágum í hláturskasti yfir miðaldra konum sem voru gjörsamlega á eyrunum, veltandi um og dettandi. Ástarmál hjá fólki gengu misvel upp en þarna var fólk sem reyndi og reyndi án árangurs og aðrir sem voru á fullu fyrir framan alla og skelltu sér síðan inn á einn bás kvennaklósettsins. Ég held ég hafi sjaldan skemmt mér eins vel og þakka bara fyrir mig.

föstudagur

Link drink.

Jæja vinir mínir, (og kannski aðrir líka). Nú hefur hún Súsanna komið því í kring að hægt sé að hoppa frá minni síðu yfir á annarra manna síðu, þ.e. einhverra síðna sem ég hefi valið. Svakalega sniðugt þetta! HA! Vona að ég sé ekki að gleyma að setja einhvern þarna...endilega látið mig óhrædd vita! Enda meira en nóg pláss.
Þið ykkar sem hafið haft rosalega miklar áhyggjur af mér þar sem ég er lasin vil ég þakka fyrir fallegar hugsanir.
En mér er held ég að batna. Ég er ekki með eins mikla hálsbólgu og er því farin að geta borðað án þess að grenja í leiðinni, en hálsbólgan er enn svolítil hægra megin og leiðir upp í eyrað og þegar það blæs í eyrað á mér eða kemur kalt á það þá langar mig til að öskra. Ég gekk því um með hallandi haus og putta í eyra í kælinum í Bónus í dag. Fólk horfði einkennilega á mig þar til litlu frænkur mínar spurðu:,, Alla hvað er eigilega að þér??´´ Er ég svaraði og fólkið í kring heyrði hvað amaði að mér varð það skilningsríkara og hætti að horfa á mig.
Maður má aldrei vera neitt öðruvísi í þessum heimi! So what að ég hafi verið soldið asnaleg, þarf fólk endilega að stara á mann? Mig langar að búa á eyðibýli, ein með fallegum gaur, nokkrum lömbum, 2 hundum og Vilhjálmi.
Ljúfa líf, ljúfa líf, du du dudu, burt á vængjum ég svíf, du du dudu...

þriðjudagur

Í dag er ég lasin. Mér finnst það ömulegt. ÉG er með mjög slæma hálsbólgu og vonda beinverki í þokkabót.